top of page
Writer's pictureDögg Harðardóttir

Guð finnur okkur

Þegar Jóhannes skírari hóf þjónustu sína þá var hann um þrítugt rétt eins og Jesús. Spámaðurinn Jesaja hafði spáð fyrir um líf og þjónustu Jóhannesar. Í Matteusarguðspjalli, 3. kafla, er sagt frá því hvernig Jóhannes hvatti fólk til að iðrast synda sinna og fólk streymdi til hans. Tímasetningin á upphafi þjónustu Jóhannesar var af Guði gefin og þjónustan sem Jóhannes innti af hendi var árangursrík.

Það getur verið erfitt fyrir fólk að vita að köllun hvíli á lífi þess og þurfa að bíða eftir því að Guð opni dyrnar. Guð hefur áætlun fyrir líf okkar allra. Stundum opinberar hann fólki áætlun sína eins og maður talar við mann, en margir finna áætlunina gegnum orðið hans, Biblíuna.

Við sjáum af lestri Biblíunnar að Guð gleymir okkur ekki. Hann finnur okkur hvar sem við erum stödd og hann er fær um að leiða okkur bæði seint og snemma, hvort sem við erum ung eða gömul. Guð fann Maríu mey og opinberaði henni áætlun sína. Guð fann fjárhirðana úti í haga þegar hann vildi opinbera þeim að frelsarinn væri fæddur. Guð fann Pál postula og kallaði hann til fylgdar við sig þegar Páll ætlaði að handtaka kristna menn og gera þeim mein. Guð fann lærisveininn Ananías og fól honum það hlutverk að fara og hitta Pál og biðja fyrir honum. Sumir vissu að köllun hvíldi á lífi þeirra, á meðan aðrir höfðu ekki hugmynd um það. En Guð var ekki í vandræðum með að finna fólkið hvar sem það var statt. Þannig mun Guð líka finna þig. Treystu honum. Hann opinberast þér á sínum tíma. Allt sem hann krefst af þér er fúsleiki, heilindi og opið hjarta.

Hann sagði: ,,Ég mun láta þá finna mig sem leita mín af öllu hjarta."


Comentários


bottom of page